Minningarsjóður JPJ Minningarsjóður Jean-Pierre Jacquillat

Jean-Pierre Jacquillat, aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá 1980 til 1986.

Æviágrip J.P. Jacquillat

Jean-Pierre Jacquillat  fæddist í Versölum 13. júlí 1935. Fyrstu skrefin á tónlistarbrautinni tók hann á námsárunum sem píanóleikari í danshljómsveitum en hann var einnig mjög góður slagverksleikari og lék sem slíkur m.a. inn á hljómplötur með Edith Piaf. Að loknu tónlistarnámi í París við Conservatoire National Superieur de Musique var hann ráðinn aðstoðarhljómsveitarsjóri hjá hinum þekkta stjórnanda Charles Munch hjá Sinfóníuhljómsveit Parísar. Hann stjórnaði fjölda tónleika í Frakklandi og víðar, auk þess sem hann hóf að hljóðrita franska tónlist, starf sem hann sinnti af miklum áhuga síðar. Árið 1970 var hann ráðinn aðalhljómsveitarsjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar í Anger og ári seinna aðalhljómsveitarstjóri Óperunnar í Lyon og Rhone-Alpes hljómsveitarinnar.

 

Árangurinn af stafi hans í Lyon leiddi til þess að honum var boðið að stjórna óperuuppfærslum víða um heim. Árið 1975 fluttist hann aftur til Parísar og gegndi um þriggja ára skeið starfi tónlistarráðgjafa Lamoureux- hljómsveitarinnar. Jean-Pierre Jacquillat  var sæmdur Silfurorðu Parísarborgar í viðurkenningarskyni fyrir tónlistarstörf í þágu borgarinnar.

 

Jacquillat kom fyrst til Íslands til að stjórna Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 1972 fyrir tilstilli hjónanna Barböru og Magnúsar Árnason en þau höfðu kynnst honum nokkru áður í Frakklandi. Árin á eftir kom hann oft til Íslands og stjórnaði sem gestastjórnandi uns hann var ráðinn aðalstjórnandi Sinfoníuhljómsveitar Íslands árið 1980 og gegndi því starfi í 6 ár.

 

Jacquillat var mjög vel liðinn stjórnandi og hafði mikil áhrif á Sinfóníuhljómsveitina á þeim tíma sem hann starfaði hér á landi. Hann eignaðist fjölda góðra vina á Íslandi og var mjög umhugað um að hér risi gott tónlistarhús sem sómi væri að.